555-555-5555
mymail@mailservice.com
Vinnuumhverfið hefur áhrif á starfsfólk frá toppi til táar.
Árangursríkt vinnuverndarstarf felur í sér að horfa á heildarmyndina og huga að þáttum sem hafa áhrif á andlega og líkamlega heilsu.
Ungt fólk er starfsfólk framtíðarinnar. Mikilvægt er að taka vel á móti nýju starfsfólki.
Ungt fólk er starfsfólk framtíðarinnar. Mikilvægt er að taka vel á móti nýju starfsfólki, finna leiðir til að öllu fólki líði vel í vinnunni og hlusta á hvert annað. Þannig byggjum við upp traust og heilbrigða vinnustaðamenningu og leggjum grunn að öryggi og vellíðan starfsfólks sem hefur jákvæð áhrif á árangur og orðspor fyrirtækja.
Það getur verið töluverður munur á því hvernig kynslóðirnar upplifa vinnuumhverfið sitt og hverjar væntingar þeirra eru til vinnunnar. Mikilvægt er að unga fólkið hafi rödd á vinnustaðnum og að stjórnendur séu opnir fyrir nýjum hugmyndum og lausnum.
Því skiptir máli að stuðla að vinnustaðamenningu sem byggir á trausti, fjölbreytileika og inngildingu sem aftur ýtir undir jákvæð samskipti. Að mörgu er að huga þegar tekið er á móti nýju fólki og er öflugt vinnuverndarstarf lykilatriði í því að öll komi heil heim starfsævina á enda.
Vinnuvernd felur í sér að tryggja öryggi og vellíðan starfsfólks í vinnuumhverfi þess. Markmiðið er ávallt að öll komi heil heim.
Tilgangurinn með öflugu vinnuverndarstarfi er að koma auga á áhættuþætti í vinnuumhverfinu og bregðast við þeim strax. Þannig er hægt að koma í veg fyrir alvarleg vinnuslys, óhöpp og vanlíðan starfsfólks.
Atvinnurekandi ber ábyrgð á skipulagi vinnuverndarstarfs og mótun heilbrigðrar vinnustaðamenningar. Árangursríkt vinnuverndarstarf byggist á samvinnu atvinnurekenda, stjórnenda og alls starfsfólks. Því er nauðsynlegt að öll taki þátt í daglegu vinnuverndarstarfi, bæði þau sem eru ný í starfi og þau sem hafa starfað lengur. Það er einnig mikilvægt að atvinnurekendur hafi skýra sýn á hvernig vinnustað þeir vilja bjóða starfsfólki sínu og að starfsfólk þekki þessa sýn.
Áhrifaríkt vinnuverndarstarf felur í sér að fá góða yfirsýn með því að meta heildstætt alla þætti vinnuumhverfisins. Þá er gott að horfa á alla þá þætti sem geta haft áhrif á öryggi og vellíðan starfsfólks, en þeir eru meðal annars líkamsbeiting við vinnu og sálfélagslegir þættir.
Góð líkamsbeiting og regluleg hreyfing hefur jákvæð áhrif á heilsu og líðan í dag og til framtíðar. Ólíkar áskoranir fylgja ólíkum störfum og því mikilvægt að huga reglulega að því hvernig við beitum líkamanum við vinnu.
Stoðkerfi er það kerfi líkamans sem gerir okkur kleift að vera uppistandandi og hreyfa okkur. Stoðkerfisverkir eru nokkuð algengir hjá fólki á vinnumarkaði og geta orsakast af mörgum samverkandi þáttum til dæmis að lyfta þungu, mikilli kyrrsetu, vinnu í miklum hraða og óþægilegri líkamsstöðu. Síendurteknar hreyfingar sem geta verið hluti af einhæfum störfum hafa einnig áhrif. Umhverfisþættir, eins og hávaði og lýsing, geta einnig haft áhrif.
Birtingarmynd stoðkerfisverkja er mismunandi og getur vöðvabólga í herðum eða einkenni frá baki verið dæmi um slíkt. Stundum finnst ekki augljós skýring á verkjum en þeir eru alltaf raunverulegir fyrir þeim sem upplifa þá.
Fræðsla um góða líkamsbeitingu og notkun léttitækja er mikilvægur hluti af forvörnum þannig að starfsfólk upplifi ekki einkenni frá stoðkerfi. Einnig er mikilvægt að draga úr einhæfri vinnu eins og kostur er og gæta þess að líkamlegt álag við vinnu sé hæfilegt. Aðrar hjálplegar leiðir eru að huga að næringu, reglulegri hreyfingu og góðum svefni og fyrirbyggja streitu. Andleg líðan getur einnig haft áhrif á verkjaupplifun og líkamsbeitingu.
Öryggi og vellíðan starfsfólks ætti að vera grundvallaratriði á hverjum vinnustað. Skipulag vinnustaðarins er undirstaðan en stjórnun og samskipti skipta einnig máli. Mikilvægt er að byggja upp traust á vinnustöðum og stuðla að heilbrigðri vinnustaðamenningu. Öll getum við haft áhrif og lagt góðan grunn að vinnuumhverfi okkar og annarra.
Skipulag, stjórnun, samskipti og stuðningur eru allt þættir sem móta vinnuumhverfið og hafa áhrif á vellíðan starfsfólks. Góð og uppbyggileg samskipti geta eflt okkur í starfi og stuðlað að árangursríkri samvinnu. Að takast á um málefni með uppbyggilegum hætti er mikilvægur þáttur í sumum störfum þótt það geti verið krefjandi. Það er nauðsynlegt að öll á vinnustaðnum geti sagt skoðanir sínar og að þeim sé tekið af virðingu óháð starfsaldri. Lesa má nánar um samskipti á velvirk.is og á vef Vinnueftirlitsins.
Þegar kemur að því að ræða líðan okkar þá erum við jafn ólík og við erum mörg. Við höfum mismunandi þarfir og grunn til að tjá okkur. Gott er að nýta verkfæri líkt og streitustigann til að skapa sameiginlegt orðfæri og þar með grundvöll að samtali. Við hvetjum stjórnendur og starfsfólk til að huga að og ræða líðan í starfi.
Einelti, áreitni og ofbeldi á aldrei að líðast í vinnuumhverfinu. Á heimasíðu Vinnueftirlitsins má finna verkfæri til að fyrirbyggja og bregðast við slíkri hegðun.